Ég elda mjög oft fisk og oft vill frystirinn verða fullur af allskonar flökum þar sem ekkert myndi nægja sem máltíð eitt og sér. Þá finnst mér tilvalið að blanda þeim saman í góða súpu og er þessi einfalda súpa frá meistarakokkinum Jamie Oliver í miklu uppáhaldi.
Sikileysk fiskisúpa að hætti Jamie Oliver, fyrir fjóra:
1 rauðlaukur
2 sellerý stilkar
1/2 lítill fennel
2 hvítlauksgeirar
1 rauður chili pipar, án fræja
2 msk ólífu olía
1 glas þurrt hvítvín
800 g tómat passata
1/2 butternut grasker
500 ml fiski kraftur
200 g laxaflök
300 g langa eða annar hvítur fiskur
u.þ.b. 12 rækjur eða humarhalar
1/2 sítróna
Salt og pipar
Steinselja eftir smekk
Hakkið rauðlaukinn, sellerýið, fennelið, hvítlaukinn og chili piparinn fínt og steikið upp úr olíunni á stórri pönnu þar til allt er orðið mjúkt.
Rífið niður graskerið og bætið út í ásamt hvítvíninu, tómat passatanu og fiski kraftinum og hitið að suðu, setjið þá lok á pönnuna og lækkið hitann. Látið malla í 30 mín og kryddið síðan með salti og pipar og kreistið sítrónusafann yfir.
Skerið fiskinn í bita og bætið ásamt rækjunum út í, sjóðið í 10 mín eða þar til allt er eldað í gegn, passið að sjóða ekki of lengi því þá verður fiskurinn seigur.
Smakkið súpuna og kryddið eftir smekk, setjið í skálar og dreifið steinselju yfir.
Upplýsingar um næringarinnihald:
Skammtastærð : 280 g af súpu
Hitaeiningar: 306 kkal
Kolvetni: 14,9 g
Prótein: 28,3 g
Fita: 11,0 g