Það er búið að vera mikið að gera upp á síðkastið og því miður hefur hugur minn ekki mikið verið hjá þessu bloggi, en ég er búin að kippa því í lag og er komin aftur á flug með allskonar hugmyndir af réttum sem mig langar til að deila með ykkur.
Í gær gerði ég þennan rétt úr nautagúllasi og heppnaðist hann svona líka vel, ótrúlega gott af fá vel samsetta og næringarríka heita máltíð í þessu kalda veðri og ekki sakar að það er hægt að borða sig pakksadda/nn án þess að innbirgða margar hitaeiningar.
Það þarf þó að passa þegar maður kaupir vörur úr dós að saltmagnið sé ekki upp úr öllu valdi og á það líka við um krafta og soð, það er hægt að fá þessar vörur með litlu saltmagni í heilsudeildum í stærstu matvöruverslununum og einhverjum heilsubúðum.
Ungnautagúllas með graskeri, fyrir fjóra:
500 g ungnautagúllas
2 tsk paprika
1 tsk kanill
1 tsk salt
1/2 tsk chili pipar flögur (red pepper flakes)
1/2 tsk mulið engifer
1/4 tsk svartur pipar
1 msk olífuolía
4 skallot laukar
4 hvítlauksgeirar
1/2 bolli kjúklingasoð
3 bollar grasker
1 dós (400g) niðursoðnir tómatar
Ferskur kóríander (má sleppa)
Blandið öllu kryddinu saman í skál og veltið kjötinu upp úr því þar til það hefur þakið vel alla bitana. Hitið olíuna í stórum potti á meðalhita, skerið skallot laukana í fernt og setjið í pottinn ásamt kjötinu. Steikið í nokkrar mínútur eða þar til kjötið hefur brúnast. Pressið hvítlauksgeirana og bætið út í, steikið í u.þ.b. mínútu og hrærið vel í á meðan, bætið þá kjúklingasoði og tómötum út í, hitið að suðu og látið sjóða í 5 mín. Skerið graskerið í ferninga og bætið út í, látið suðuna koma upp, lokið þá pottinum, lækkið hitann og látið malla í 15 mín eða þar til graskerið er orðið mjúkt.
Berið fram með hýðishrísgrjónum og stráið ferskum kóríander yfir.
Upplýsingar um næringarinnihald:
Skammtastærð: Einn diskur, um 300 g
Hitaeiningar: 231,9 kkal
Kolvetni: 18,6 g
Prótein: 27,9 g
Fita: 5,1 g
Skammtastærð: 300g af kjötrétt og 120 g soðin hýðishrísgrjón
Hitaeiningar: 344,7 g
Kolvetni: 42,0 g
Prótein: 30,9 g
Fita: 5,9 g
Engin ummæli :
Skrifa ummæli