Góða kvöldið kæru lesendur, vonandi voru páskarnir ykkar jafn frábærir og mínir.
Ég er ekki búin að standa mig nógu vel í því að setja uppskriftir hér inn seinustu vikur, ég er að átta mig á því að þegar hversdagsleikinn og rútínan nær hámarki þá eru vikurnar allar mjög svipaðar hjá okkur þegar kemur að mataræði og tilraunastarfsemin aðeins lögð til hliðar. En það er eitthvað sem ég mun nýta þetta blogg í að laga og ætla því að nota næstu vikur í að bæta ykkur bloggleysið upp ;)
Í morgun vaknaði ég með algert ógeð yfir öllum óholla matnum sem ég er búin að láta ofan í mig seinustu daga og var alveg tilbúin í hollustuna eftir páska. Ég ákvað því að gera grænmetislasagna í kvöld með fullt af grænmeti og fá smá næringu í kroppinn ;)
Ég bauð tæplega ársgömlum syni mínum upp á þennan rétt í fyrsta skipti í kvöld og það kom mér mikið á óvart að hann kláraði þrjár skálar þannig að endilega prófið að búa til fyrir fjölskylduna. Finnst fólk oft vera hrætt við að prófa holla rétti því það er svo hrætt um að börnin borði ekki matinn.
Grænmetislasagna, fyrir fjóra:
2 msk ólífu olía
1 laukur
2-3 hvítlauksrif
2 gulrætur
1 rauð paprika
1 lítill haus brokkolí (150 g)
1 lítill haus blómkál (150 g)
100 g sveppir
2 lúkur spínat
2 tsk basilika
1 tsk oregano
salt og pipar eftir smekk
1 dós niðursoðnir tómatar
1 dós tómatpúrra
1 bolli vatn
Lasagna plötur (ég notaði spelt)
1 stór dós kotasæla
150 g rifinn ostur (17%)
Þrífið grænmetið og saxið smátt, byrjið á að steikja lauk og hvítlauk upp úr olíunni og bætið síðan restinni af grænmetinu saman við að frátöldu spínatinu. Steikið í nokkrar mín eða þar til grænmetið er farið að mýkjast og bætið þá spínatinu út í ásamt kryddunum. Þegar spínatið er orðið mjúkt setjið þá niðursoðna tómata, tómatpúrru og vatn út í, hrærið vel, lækkið hitann og látið malla í 10-15 mín.
Setjið hluta af grænmetissósunni í botninn á eldföstu fati og leggið lasagnaplötur yfir, smyrjið kotasælu yfir lasagnaplöturnar, setjið aftur grænmetissósu og koll af kolli. Dreyfið rifnum osti yfir í lokinn og bakið í miðjum ofni við 180° í 40 mín.
Upplýsingar um næringarinnihald:
Skammtastærð: 250 g af lasagna
Hitaeiningar: 403,1 kkal
Kolvetni: 43,3 g
Prótein: 21,7 g
Fita: 15,9 g
Engin ummæli :
Skrifa ummæli