Þriðjudagur og febrúar vel rúmlega hálfnaður, hversdagsleikinn gæti ekki verið mikið meiri en núna. Í kvöld eins og svo oft áður á þriðjudögum vorum við með fisk, hann heppnaðist svona líka vel að ég varð að deila honum með ykkur.
Fyrir löngu síðan var ég á flakki um uppskriftasíður á netinu og rakst á þessa ofureinföldu og girnilegu uppskrift á heimasíðu Taste. Ég vistaði uppskriftina hjá mér en hef ekki komið mér í að elda hana fyrr en nú. Ég hefði átt að vera löngu búin af því, því þessi réttur var mjög bragðgóður og eins einfaldur og þeir gerast, ég var í u.þ.b. 10 mín að undirbúa hann og svo var hann í 25 mín inni í ofni. Svo skemmdi það ekki fyrir að þar sem það þarf lítið til við að útbúa þennan rétt var eldhúsið ennþá nokkuð hreint þegar maturinn var tilbúinn, sem að þeir sem að þekkja mig vita að gerist alls ekki oft þegar ég er í eldhúsinu ;)
Mæli með því að þið bíðið ekki eins lengi og ég gerði með að elda þennan frábæra fiskrétt.
Ofnbakaður fiskur á grænmeti, fyrir fjóra:
800 gr hvítur fiskur
2 kúrbítar (zucchini)
2 rauðlaukar
3 tómatar
1/2 dl svartar ólífur
1/2 dl ólífu olía
1 hvítlauksgeiri
1 msk sítrónusafi
1 msk dijon sinnep
Fersk steinselja eftir smekk
Hitið ofninn í 200°. Skerið kúrbít, rauðlauk og tómata í bita og setjið í eldfast form, skerið ólífurnar í skífur og dreifið yfir grænmetið ásamt 1 msk af ólífuolíunni. Pennslið fiskinn með annarri matskeið af olíunni og leggið hann ofan á grænmetið. Bakið í miðjum ofni í 25 - 30 mín.
Pressið hvítlauksgeirann og blandið saman við restina af olíunni, ásamt sítrónusafa og sinnepi svo úr verði dressing.
Skiptið grænmetinu á diska, setjið fiskbita ofan á og hellið dressingu yfir, dreifið í lokinn steinselju yfir eftir smekk.
Upplýsingar um næringarinnihald:
Skammtastærð: u.þ.b. 180 g af fiski með 100 g af grænmeti og dressingu
Hitaeiningar: 372,0 kkal
Kolvetni: 13,2 g
Prótein: 42,9 g
Fita: 16,4 g
Engin ummæli :
Skrifa ummæli