þriðjudagur, 4. febrúar 2014

Graskerssúpa með garðablóðbergi


Ég fór í Nettó í gær að versla í matinn það er nú ekki í frásögu færandi nema hvað þegar ég er að labba út úr grænmetisdeildinni kemur að mér eldri kona. Graskerið í körfunni minni vakti áhuga hennar og hún fór að spyrja mig út í það, hún hafði oft séð fólk versla það en gat ekki ímyndað sér í hvað þetta væri notað. Ég sagði henni frá nokkrum aðferðum sem ég hef notað við að matreiða grasker og sagði henni einnig að ég væri að fara að búa til súpu úr því um kvöldið, endaði þetta samtal okkar á því að hún fór og keypti sér grasker ásamt öllu því innihaldi sem ég sagði henni að væri í súpu kvöldsins. 
Súpan mín bragðaðist frábærlega og því fáið þið uppskriftina af henni hér, mikið vona ég að súpan hjá þessari yndislegu konu hafi bragðast jafn vel. 



Graskerssúpa með garðablóðbergi, fyrir fjóra: 
2 msk jómfrúar ólífu olía
500 g butternut grasker
1 meðalstór gulrót
1 laukur
1/2 grænt epli 
1 L kjúklingasoð
1/2 tsk garðablóðberg (timjan) 
1/2 tsk sjávarsalt
1/2 tsk svartur pipar

Saxið laukinn og gulrótina, afhýðið og kjarnhreinsið eplið og skerið í litla bita. Skerið graskerið í ferninga. 
Hitið olíuna í stórum potti og steikið lauk, gulrætur og epli í 3-4 mín eða þar til laukurinn er orðinn gegnsær. Bætið þá út í graskersbitunum og kjúklingasoðinu ásamt kryddum. Hitið á háum hita að suðu, lækkið þá hitann og sjóðið á meðalháum hita í u.þ.b. 30 mín eða þar til graskerið er orðið það mjúkt að hægt er að stinga gaffli í gegnum það. Maukið súpuna með töfrasprota í pottinum eða bíðið þar til hún hefur kólnað aðeins og setjið hana í blandara. 

Upplýsingar um næringarinnihald: 
Skammtastærð: Ein skál, 350 ml
Hitaeiningar: 188,8 kkal
Kolvetni: 25,2 g
Prótein: 3,1 g
Fita: 8,4 g

Engin ummæli :

Skrifa ummæli