Kjúklingur er ansi oft í matinn á þessu heimili eins og svo mörgum öðrum. Í gærkvöldi voru það marineraðar bringur, ásamt hýðishrísgrjónum og góðu salati, vel heppnaður þriðjudagsmatur.
Hunangs- og límónumarineraðar kjúklingabringur, fyrir fjóra:
4 kjúklingabringur
3 msk Tamari sósa
1 msk ólífu olía
1 msk hunang
Safi úr einni límónu (lime)
2 hvítlauksgeirar, pressaðir
Blandið Tamari sósu, ólífu olíu, hunangi, límónusafanum og pressuðum hvítlauksgeirum saman í skál og hrærið vel. Setjið kjúklingabringurnar í rennilásapoka og hellið marineringunni yfir, látið þekja vel allar bringurnar. Lokið pokanum og geymið í ísskáp í að minnsta kosti klukkustund, þeim mun lengur þeim mun betra. Grillið bringurnar á vel heitu grilli, eða grillpönnu, í 7 mín á hvorri hlið eða þar til þær eru eldaðar alveg í gegn.
Berið fram með hýðishrísgrjónum og blönduðu salati.
Í einni marineraðri bringu (130 g) eru:
Hitaeiningar: 161 kkal
Kolvetni: 2,2 g
Prótein: 31,3 g
Fita: 3,0 g
Í einni marineraðri bringu, 100 g af soðnum hýðishrísgrjónum og c.a. 150 g af blönduðu salati eru:
Hitaeiningar: 282 kkal
Kolvetni: 26,2 g
Prótein: 35,4 g
Fita: 3,9 g
Hafa skal í huga að það blanda ekki allir salatið sitt eins og því er þetta aðeins til viðmiðunar, en ef það er eingöngu grænmeti í salatinu ætti ekki að muna svo miklu á næringargildinu.