föstudagur, 4. júlí 2014

Sikileysk fiskisúpa að hætti Jamie Oliver

Ég elda mjög oft fisk og oft vill frystirinn verða fullur af allskonar flökum þar sem ekkert myndi nægja sem máltíð eitt og sér. Þá finnst mér tilvalið að blanda þeim saman í góða súpu og er þessi einfalda súpa frá meistarakokkinum Jamie Oliver í miklu uppáhaldi. 


Sikileysk fiskisúpa að hætti Jamie Oliver, fyrir fjóra: 
1 rauðlaukur
2 sellerý stilkar
1/2 lítill fennel
2 hvítlauksgeirar
1 rauður chili pipar, án fræja
2 msk ólífu olía
1 glas þurrt hvítvín 
800 g tómat passata 
1/2 butternut grasker
500 ml fiski kraftur
200 g laxaflök
300 g langa eða annar hvítur fiskur
u.þ.b. 12 rækjur eða humarhalar
1/2 sítróna 
Salt og pipar 
Steinselja eftir smekk 

Hakkið rauðlaukinn, sellerýið, fennelið, hvítlaukinn og chili piparinn fínt og steikið upp úr olíunni á stórri pönnu þar til allt er orðið mjúkt. 
Rífið niður graskerið og bætið út í ásamt hvítvíninu, tómat passatanu og fiski kraftinum og hitið að suðu, setjið þá lok á pönnuna og lækkið hitann. Látið malla í 30 mín og kryddið síðan með salti og pipar og kreistið sítrónusafann yfir. 
Skerið fiskinn í bita og bætið ásamt rækjunum út í, sjóðið í 10 mín eða þar til allt er eldað í gegn, passið að sjóða ekki of lengi því þá verður fiskurinn seigur. 
Smakkið súpuna og kryddið eftir smekk, setjið í skálar og dreifið steinselju yfir. 

Upplýsingar um næringarinnihald: 
Skammtastærð : 280 g af súpu
Hitaeiningar: 306 kkal
Kolvetni: 14,9 g 
Prótein: 28,3 g
Fita: 11,0 g 

mánudagur, 26. maí 2014

Uppáhalds kjúklingasalatið

Nú er sumarið að skella á og veðrið hefur verið frekar gott upp á síðkastið. Þegar vorið kemur fer ég að elda minna af súpum og þess háttar mat og salöt og léttir réttir verða meira áberandi. Í kvöld gerði ég þetta góða kjúklingasalat sem stendur alltaf fyrir sínu, endilega prófið og komist í smá sumarskap í leiðinni. 


Uppáhalds kjúklingasalatið, fyrir fjóra: 
2 skinnlausar kjúklingabringur
2 msk balsamik edik
1 msk ólívu olía
200 g blandað grænt salat
50 g pekan hnetur
1 rauðlaukur
1/2 fetakubbur
Askja jarðarber
Salt og pipar

Skerið kjúklinginn í bita, setjið í skál og hellið yfir balsamik edikinu og olíunni. Steikið bitana á pönnu við meðalháan hita þar til þeir eru fulleldaðir, setjið til hliðar og látið kólna. 
Skerið niður rauðlauk og jarðarber og miljið fetakubbinn. Blandið öllu saman í skál og setjið kjúklinginn ofan á. 

Dressing: 
1/2 bolli ólívu olía
1/4 bolli balsamik edik 
1 tsk hunang
1 tsk Dijon sinnep
1/2 laukur
1 hvítlauksrif
salt og pipar

Saxið laukinn mjög fínt og pressið hvítlauksrifið, blandið síðan öllu saman í vel lokað ílát og hrisstið þar til allt hefur blandast vel. 
Hellið yfir salatið og NJÓTIÐ ! ;)

Upplýsingar um næringarinnihald: 
Skammtastærð: 1/4 af salatinu og 2 msk dressing
Hitaeiningar: 569 kkal
Kolvetni: 16 g
Prótein: 34 g
Fita: 41 g

Ath. að næringarinnihaldið er eingöngu viðmið þar sem hlutföllin af því sem fólk fær af innihaldsefnunum geta verið mjög mismunandi. 
Ef þið viljið fækka hitaeiningunum getið þið t.d. sleppt fetaostinum eða hnetunum. 

fimmtudagur, 8. maí 2014

Bláberja og bananamuffins

Skellti í þessar muffins seinnipartinn, mikið ofboðslega voru þær góðar, eins og alltaf. Finnst svo gott að eiga til eitthvað svona góðgæti sem hægt er að grípa í þegar mikið er að gera. 
Endilega prófið þessar, þið verðið ekki svikin ! 
Njótið :)


Bláberja og bananamuffins: 
2,5 bollar hafrar
1 bolli grísk jógúrt
1/2 bolli bláber
2 þroskaðir bananar
2 egg
1/2 bolli hunang
1,5 tsk lyftiduft, helst vínsteins
1 tsk matarsódi

Fínmalið hafrana og blandið öllum innihaldsefnum að frátöldum bláberjunum vel saman, bætið þeim út í í lokinn og hrærið létt. 
Skiptið jafnt í 12 muffinsform og bakið í miðjum ofni við 200° C í 25-30 mín eða þar til þær eru bakaðar alveg í gegn. Það þarf að fylgjast vel með þeim því þær brenna fljótt. 


Upplýsingar um næringarinnihald: 
Skammtastærð: 1 muffins, 60 g. 
Hitaeiningar: 277,6 kkal
Kolvetni: 47,3 g
Prótein: 14, 9 g
Fita: 3,2 g

þriðjudagur, 22. apríl 2014

Grænmetislasagna

Góða kvöldið kæru lesendur, vonandi voru páskarnir ykkar jafn frábærir og mínir. 
Ég er ekki búin að standa mig nógu vel í því að setja uppskriftir hér inn seinustu vikur, ég er að átta mig á því að þegar hversdagsleikinn og rútínan nær hámarki þá eru vikurnar allar mjög svipaðar hjá okkur þegar kemur að mataræði og tilraunastarfsemin aðeins lögð til hliðar. En það er eitthvað sem ég mun nýta þetta blogg í að laga og ætla því að nota næstu vikur í að bæta ykkur bloggleysið upp ;) 

Í morgun vaknaði ég með algert ógeð yfir öllum óholla matnum sem ég er búin að láta ofan í mig seinustu daga og var alveg tilbúin í hollustuna eftir páska. Ég ákvað því að gera grænmetislasagna í kvöld með fullt af grænmeti og fá smá næringu í kroppinn ;) 


Ég bauð tæplega ársgömlum syni mínum upp á þennan rétt í fyrsta skipti í kvöld og það kom mér mikið á óvart að hann kláraði þrjár skálar þannig að endilega prófið að búa til fyrir fjölskylduna. Finnst fólk oft vera hrætt við að prófa holla rétti því það er svo hrætt um að börnin borði ekki matinn. 


Grænmetislasagna, fyrir fjóra: 
2 msk ólífu olía
1 laukur
2-3 hvítlauksrif
2 gulrætur
1 rauð paprika
1 lítill haus brokkolí (150 g) 
1 lítill haus blómkál (150 g) 
100 g sveppir
2 lúkur spínat
2 tsk basilika
1 tsk oregano 
salt og pipar eftir smekk 
1 dós niðursoðnir tómatar
1 dós tómatpúrra
1 bolli vatn 
Lasagna plötur (ég notaði spelt) 
1 stór dós kotasæla
150 g rifinn ostur (17%)

Þrífið grænmetið og saxið smátt, byrjið á að steikja lauk og hvítlauk upp úr olíunni og bætið síðan restinni af grænmetinu saman við að frátöldu spínatinu. Steikið í nokkrar mín eða þar til grænmetið er farið að mýkjast og bætið þá spínatinu út í ásamt kryddunum. Þegar spínatið er orðið mjúkt setjið þá niðursoðna tómata, tómatpúrru og vatn út í, hrærið vel, lækkið hitann og látið malla í 10-15 mín. 
Setjið hluta af grænmetissósunni í botninn á eldföstu fati og leggið lasagnaplötur yfir, smyrjið kotasælu yfir lasagnaplöturnar, setjið aftur grænmetissósu og koll af kolli. Dreyfið rifnum osti yfir í lokinn og bakið í miðjum ofni við 180° í 40 mín. 

Upplýsingar um næringarinnihald: 
Skammtastærð: 250 g af lasagna
Hitaeiningar: 403,1 kkal 
Kolvetni: 43,3 g
Prótein: 21,7 g
Fita:  15,9 g

miðvikudagur, 26. mars 2014

Einn grænn og góður

Góða kvöldið kæru lesesendur. Allt í einu tók bloggið eitthvað stökk og fleiri og fleiri heimsóknir koma með hverjum deginum, það finnst mér ekki leiðinlegt og vil ég nýta tækifærið og þakka fyrir frábærar viðtökur og kveðjur sem ég hef fengið upp á síðkastið. Þið eruð öll frábær og það er æðislegt að fá að heyra frá ykkur. 

Í dag ætla ég að deila með ykkur einum grænum safa sem ég elska og geri ansi oft. Fékk mér hann til dæmis núna seinnipartinn, hann gefur manni góða orku og það er eitthvað sem ég þurfti alveg á að halda í dag. Miðvikudagar eru alltaf stútfullir af dagskrá og því gott að fá góða orku, sérstaklega í svona veðri eins og var í dag. Ég náði ekki lönguninni úr mér að sleppa bara dagskránni, fara heim, baka eitthvað gott brauð og hella upp á gott kaffi og horfa svo bara á rigninguna út um gluggann. En það var víst ekki í boði og dagurinn kláraður, það liggur við að ég voni að það komi annar svona dagur þegar dagskráin er ekki eins stíf svo ég geti átt þessa stund sem mig dreymdi um í allan dag ;) 

En að safanum, þessi er eins einfaldur og þeir gerast og hann er mjög góður, með betri grænum söfum sem ég geri.


Einn grænn og góður, fyrir einn: 
1 banani 
1/2 bolli ananas
1/2 bolli mangó
1 bolli spínat
1 bolli vatn 

Allt sett í blandara og blandað vel saman, gerist ekki einfaldara. Ég myndi hafa allavega einn af ávöxtunum frosinn til að fá safann ferskari, ég er oftast með bæði ananas og mangó frosið en annars er alltaf hægt að setja klaka. 

Upplýsingar um næringarinnihald: 
Skammtastærð: Öll uppskriftin. 
Hitaeiningar: 223,0 kkal 
Kolvetni: 51,4 g
Prótein: 3,0 g
Fita: 0,6 g

fimmtudagur, 20. mars 2014

Súkkulaði kókoskúlur

Þessar kókoskúlur eru dásamlegar. Uppskriftin er frekar stór og gefur rúmar 80 kúlur, það er því tilvalið að henda þeim í frysti og taka nokkrar út þegar sykurþörfin læðist að manni. Ein kúla er ekki nema rétt yfir 30 kaloríur þannig að maður getur alveg leyft sér nokkrar inni í miðri viku án þess að fá samviskubit ;) Svo eru þær líka svo fallegar og gaman að setja þær í fallega skál og bjóða upp á þegar gestir koma. 


Súkkulaði Kókoskúlur: 
1 bolli hakkaðar hnetur eða möndlur, mér finnst heslihetur eða kasjúhnetur bestar
1 bolli kókosmjöl
2,5 bollar hakkaðar döðlur
3,5 msk hreint kakóduft
1 tsk vanilla extract 
Hunang eftir þörfum


Leggið döðlurnar í bleyti í 15 mín og setjið svo í blandara eða matvinnsluvél ásamt restinni af innihaldsefnunum að undanskyldu hunanginu, blandið í 3-4 mín eða þar til allt hefur blandast vel saman og bætið hunangi út í eftir þörfum þannig að þetta verði þykkur massi, u.þ.b. 2-3 msk. 
Látið degið standa í nokkrar mín og búið svo til munnbitastórar kúlur, veltið upp úr kókos og setjið í kæli í klukkustund eða lengur. 

Upplýsingar um næringarinnihald: 
Skammtastærð: Ein kúla, 8 g. 
Hitaeiningar: 31,1 kkal
Kolvetni: 2,9 g 
Prótein: 1,5 g
Fita: 1,5 g 

fimmtudagur, 13. mars 2014

Ungnautagúllas með graskeri

Það er búið að vera mikið að gera upp á síðkastið og því miður hefur hugur minn ekki mikið verið hjá þessu bloggi, en ég er búin að kippa því í lag og er komin aftur á flug með allskonar hugmyndir af réttum sem mig langar til að deila með ykkur. 
Í gær gerði ég þennan rétt úr nautagúllasi og heppnaðist hann svona líka vel, ótrúlega gott af fá vel samsetta og næringarríka heita máltíð í þessu kalda veðri og ekki sakar að það er hægt að borða sig pakksadda/nn án þess að innbirgða margar hitaeiningar.  
Það þarf þó að passa þegar maður kaupir vörur úr dós að saltmagnið sé ekki upp úr öllu valdi og á það líka við um krafta og soð, það er hægt að fá þessar vörur með litlu saltmagni í heilsudeildum í stærstu matvöruverslununum og einhverjum heilsubúðum. 



Ungnautagúllas með graskeri, fyrir fjóra: 
500 g ungnautagúllas
2 tsk paprika
1 tsk kanill
1 tsk salt
1/2 tsk chili pipar flögur (red pepper flakes)
1/2 tsk mulið engifer
1/4 tsk svartur pipar
1 msk olífuolía
4 skallot laukar
4 hvítlauksgeirar
1/2 bolli kjúklingasoð
3 bollar grasker
1 dós (400g) niðursoðnir tómatar
Ferskur kóríander (má sleppa) 

Blandið öllu kryddinu saman í skál og veltið kjötinu upp úr því þar til það hefur þakið vel alla bitana. Hitið olíuna í stórum potti á meðalhita, skerið skallot laukana í fernt og setjið í pottinn ásamt kjötinu. Steikið í nokkrar mínútur eða þar til kjötið hefur brúnast. Pressið hvítlauksgeirana og bætið út í, steikið í  u.þ.b. mínútu og hrærið vel í á meðan, bætið þá kjúklingasoði og tómötum út í, hitið að suðu og látið sjóða í 5 mín. Skerið graskerið í ferninga og bætið út í, látið suðuna koma upp, lokið þá pottinum, lækkið hitann og látið malla í 15 mín eða þar til graskerið er orðið mjúkt.
Berið fram með hýðishrísgrjónum og stráið ferskum kóríander yfir.

Upplýsingar um næringarinnihald: 
Skammtastærð: Einn diskur, um 300 g
Hitaeiningar: 231,9 kkal 
Kolvetni: 18,6 g
Prótein: 27,9 g 
Fita: 5,1 g 

Skammtastærð: 300g af kjötrétt og 120 g soðin hýðishrísgrjón 
Hitaeiningar: 344,7 g
Kolvetni: 42,0 g
Prótein: 30,9 g
Fita: 5,9 g