Eins og ég hef nefnt áður þá lifi ég svolítið eftir því að allt sé gott í hófi, reyni að borða sem hollast dagsdaglega en leyfi mér alveg óhollt ef það stendur á boðstólnum og tilefni þykir til. Það eina sem aldrei fer inn fyrir mínar varir eru sykraðir gosdrykkir og sælgæti í þeirri eiginlegu merkingu, þ.e. hlaup, karamellur, lakkrís, brjóstsykur og þess háttar. Ég leifi mér þó stundum, já okei alltof oft, að fá mér smá dökkt súkkulaði.
Dökka súkkulaðið getur orðið ansi leiðigjarnt til lengar og því finnst mér rosa gott að búa til svona sælgæti með hnetum, þurrkuðum ávöxtum, kókos og öllu því sem mig langar í á þeirri stundu. Það er líka kostur að þetta tekur smá tíma að verða tilbúið og því er súkkulaðilöngunin stundum liðin hjá þegar það kemur að því að mega borða þetta. Ég viðurkenni að það gerist alls ekki oft en það gerist þó ;)
Ég vigta aldrei það sem ég set ofan á og set bara eins mikið og mér finnst líta út fyrir að vera gott, en ég vigtaði í þetta skipti til að hafa næringarupplýsingarnar réttar. Mæli með að þið prófið ykkur áfram í að setja mismunandi ofan á súkkulaðið og finna það sem ykkur finnst best.
Sælgæti úr dökku súkkulaði, gefur 230 g:
200 g 70% súkkulaði
15 g blandaðar hakkaðar hnetur og möndlur
10 g þurrkaðir ávextir, í þetta skipti var ég með goji ber og rúsínur
5 g muldar kókosflögur
Bræðið súkkulaðið yfir vatnsbaði, þekið eldfast form eða annað form að svipaðri stærð með bökunarpappír og hellið súkkulaðinu ofan í. Dreifið vel úr súkkulaðinu og stráið svo restinni yfir. Geymið í kæli þar til alveg storknað. Mér finnst fallegast að brjóta plötuna niður í óleglulega bita en það er líka hægt að skera hana út ferninga, miðað við mína stærð sem er á myndunum fást um 10 bitar.
Upplýsingar um næringarinnihald:
Skammtastærð: 1 biti, c.a. 23 g
Hitaeiningar: 124,1 kkal
Kolvetni: 9,2 g
Prótein: 1,8 g
Fita: 8,9 g