þriðjudagur, 25. febrúar 2014

Guacamole fyllt eggjahvíta

Avócadóæðið heldur áfram. Þessi einfalda uppskrift, ef uppskrift má kalla, er uppáhalds millimálið mitt þessa dagana. Ég gæti lifað á þessu. 


Guacomolefyllt eggjahvíta: 
1 harðsoðin eggjahvíta
1 msk guacamole
Svartur pipar. 

Harðsjóðið eggið, fjarlægið skurnina og skerið það í tvennt. Takið rauðuna úr og fyllið upp í gatið með guacamole. Myljið svartan pipar yfir. 

Þið getið fundið uppskrift af heimagerðu guacamole hér

Upplýsingar um næringarinnihald: 
Skammtastærð: 1 meðalstór eggjahvíta og 1 msk guacamole
Hitaeiningar: 64,6 kkal
Kolvetni: 3,1 g 
Prótein: 4,5 g 
Fita: 3,8 g 

þriðjudagur, 18. febrúar 2014

Ofnbakaður fiskur á grænmeti

Þriðjudagur og febrúar vel rúmlega hálfnaður, hversdagsleikinn gæti ekki verið mikið meiri en núna. Í kvöld eins og svo oft áður á þriðjudögum vorum við með fisk, hann heppnaðist svona líka vel að ég varð að deila honum með ykkur. 
Fyrir löngu síðan var ég á flakki um uppskriftasíður á netinu og rakst á þessa ofureinföldu og girnilegu uppskrift á heimasíðu Taste. Ég vistaði uppskriftina hjá mér en hef ekki komið mér í að elda hana fyrr en nú. Ég hefði átt að vera löngu búin af því, því þessi réttur var mjög bragðgóður og eins einfaldur og þeir gerast, ég var í u.þ.b. 10 mín að undirbúa hann og svo var hann í 25 mín inni í ofni. Svo skemmdi það ekki fyrir að þar sem það þarf lítið til við að útbúa þennan rétt var eldhúsið ennþá nokkuð hreint þegar maturinn var tilbúinn, sem að þeir sem að þekkja mig vita að gerist alls ekki oft þegar ég er í eldhúsinu ;)
Mæli með því að þið bíðið ekki eins lengi og ég gerði með að elda þennan frábæra fiskrétt. 



Ofnbakaður fiskur á grænmeti, fyrir fjóra: 
800 gr hvítur fiskur
2 kúrbítar (zucchini) 
2 rauðlaukar
3 tómatar
1/2 dl svartar ólífur
1/2 dl ólífu olía
1 hvítlauksgeiri
1 msk sítrónusafi
1 msk dijon sinnep
Fersk steinselja eftir smekk

Hitið ofninn í 200°. Skerið kúrbít, rauðlauk og tómata í bita og setjið í eldfast form, skerið ólífurnar í skífur og dreifið yfir grænmetið ásamt 1 msk af ólífuolíunni. Pennslið fiskinn með annarri matskeið af olíunni og leggið hann ofan á grænmetið. Bakið í miðjum ofni í 25 - 30 mín. 
Pressið hvítlauksgeirann og blandið saman við restina af olíunni, ásamt sítrónusafa og sinnepi svo úr verði dressing. 
Skiptið grænmetinu á diska, setjið fiskbita ofan á og hellið dressingu yfir, dreifið í lokinn steinselju yfir eftir smekk. 

Upplýsingar um næringarinnihald: 
Skammtastærð: u.þ.b. 180 g af fiski með 100 g af grænmeti og dressingu 
Hitaeiningar: 372,0 kkal
Kolvetni: 13,2 g
Prótein: 42,9 g
Fita: 16,4 g

sunnudagur, 9. febrúar 2014

Heimagert sælgæti úr dökku súkkulaði

Eins og ég hef nefnt áður þá lifi ég svolítið eftir því að allt sé gott í hófi, reyni að borða sem hollast dagsdaglega en leyfi mér alveg óhollt ef það stendur á boðstólnum og tilefni þykir til. Það eina sem aldrei fer inn fyrir mínar varir eru sykraðir gosdrykkir og sælgæti í þeirri eiginlegu merkingu, þ.e. hlaup, karamellur, lakkrís, brjóstsykur og þess háttar. Ég leifi mér þó stundum, já okei alltof oft, að fá mér smá dökkt súkkulaði. 


Dökka súkkulaðið getur orðið ansi leiðigjarnt til lengar og því finnst mér rosa gott að búa til svona sælgæti með hnetum, þurrkuðum ávöxtum, kókos og öllu því sem mig langar í á þeirri stundu. Það er líka kostur að þetta tekur smá tíma að verða tilbúið og því er súkkulaðilöngunin stundum liðin hjá þegar það kemur að því að mega borða þetta. Ég viðurkenni að það gerist alls ekki oft en það gerist þó ;) 


Ég vigta aldrei það sem ég set ofan á og set bara eins mikið og mér finnst líta út fyrir að vera gott, en ég vigtaði í þetta skipti til að hafa næringarupplýsingarnar réttar. Mæli með að þið prófið ykkur áfram í að setja mismunandi ofan á súkkulaðið og finna það sem ykkur finnst best. 

Sælgæti úr dökku súkkulaði, gefur 230 g:
200 g 70% súkkulaði 
15 g blandaðar hakkaðar hnetur og möndlur
10 g þurrkaðir ávextir, í þetta skipti var ég með goji ber og rúsínur
5 g muldar kókosflögur


Bræðið súkkulaðið yfir vatnsbaði, þekið eldfast form eða annað form að svipaðri stærð með bökunarpappír og hellið súkkulaðinu ofan í. Dreifið vel úr súkkulaðinu og stráið svo restinni yfir. Geymið í kæli þar til alveg storknað. Mér finnst fallegast að brjóta plötuna niður í óleglulega bita en það er líka hægt að skera hana út ferninga, miðað við mína stærð sem er á myndunum fást um 10 bitar. 

Upplýsingar um næringarinnihald: 
Skammtastærð: 1 biti, c.a. 23 g
Hitaeiningar: 124,1 kkal
Kolvetni: 9,2 g
Prótein: 1,8 g
Fita: 8,9 g

þriðjudagur, 4. febrúar 2014

Graskerssúpa með garðablóðbergi


Ég fór í Nettó í gær að versla í matinn það er nú ekki í frásögu færandi nema hvað þegar ég er að labba út úr grænmetisdeildinni kemur að mér eldri kona. Graskerið í körfunni minni vakti áhuga hennar og hún fór að spyrja mig út í það, hún hafði oft séð fólk versla það en gat ekki ímyndað sér í hvað þetta væri notað. Ég sagði henni frá nokkrum aðferðum sem ég hef notað við að matreiða grasker og sagði henni einnig að ég væri að fara að búa til súpu úr því um kvöldið, endaði þetta samtal okkar á því að hún fór og keypti sér grasker ásamt öllu því innihaldi sem ég sagði henni að væri í súpu kvöldsins. 
Súpan mín bragðaðist frábærlega og því fáið þið uppskriftina af henni hér, mikið vona ég að súpan hjá þessari yndislegu konu hafi bragðast jafn vel. 



Graskerssúpa með garðablóðbergi, fyrir fjóra: 
2 msk jómfrúar ólífu olía
500 g butternut grasker
1 meðalstór gulrót
1 laukur
1/2 grænt epli 
1 L kjúklingasoð
1/2 tsk garðablóðberg (timjan) 
1/2 tsk sjávarsalt
1/2 tsk svartur pipar

Saxið laukinn og gulrótina, afhýðið og kjarnhreinsið eplið og skerið í litla bita. Skerið graskerið í ferninga. 
Hitið olíuna í stórum potti og steikið lauk, gulrætur og epli í 3-4 mín eða þar til laukurinn er orðinn gegnsær. Bætið þá út í graskersbitunum og kjúklingasoðinu ásamt kryddum. Hitið á háum hita að suðu, lækkið þá hitann og sjóðið á meðalháum hita í u.þ.b. 30 mín eða þar til graskerið er orðið það mjúkt að hægt er að stinga gaffli í gegnum það. Maukið súpuna með töfrasprota í pottinum eða bíðið þar til hún hefur kólnað aðeins og setjið hana í blandara. 

Upplýsingar um næringarinnihald: 
Skammtastærð: Ein skál, 350 ml
Hitaeiningar: 188,8 kkal
Kolvetni: 25,2 g
Prótein: 3,1 g
Fita: 8,4 g

sunnudagur, 2. febrúar 2014

Heimagert guacamole

Þið hafið kannski tekið eftir því en ég er með æði fyrir avocadó, þarf að passa mig svo að það verði ekki eingöngu avócadó uppskritir á þessari síðu ;)


En ég gerði þetta guacamole í dag og það er svo gott. Það er hægt að nota það sem meðlæti með mjög mörgu, kjöt, fiski, kjúkling og auðvitað öllum mexícóskum mat, minn maður stelur því meira að segja og borðar með snakkinu sínu á kvöldin. Ekki er verra að það tekur enga stund að gera það og því er það oft á borðum hjá okkur með kvöldmatnum, eða sem álegg á hrökkbrauð eða hrískökur. 

Uppskriftin gefur u.þ.b. 2 bolla af mauki. 

Guacamole uppskrift: 
3 meðalstór vel þroskuð avócadó 
Hálfur ferskur Chili pipar
2 hvítlauksgeirar
Hálfur rauðlaukur
1 tsk sítrónusafi 
Sjávarsalt eftir smekk

Stappið avócadóið svo það verði að mauki. Fjarlægið fræ úr chilipiparnum og skerið í eins litla bita og mögulegt er, saxið rauðlaukinn smátt og pressið hvítlauksrifin. Blandið öllum hráefnunum saman í skál og hrærið þar til allt hefur blandast vel saman. 

Upplýsingar um næringarinnihald: 
Skammtastærð: 1/2 bolli  
Hitaeiningar: 135,3 kkal
Kolvetni: 8,6 g
Prótein: 1,5 g
Fita: 10,4 g