miðvikudagur, 26. mars 2014

Einn grænn og góður

Góða kvöldið kæru lesesendur. Allt í einu tók bloggið eitthvað stökk og fleiri og fleiri heimsóknir koma með hverjum deginum, það finnst mér ekki leiðinlegt og vil ég nýta tækifærið og þakka fyrir frábærar viðtökur og kveðjur sem ég hef fengið upp á síðkastið. Þið eruð öll frábær og það er æðislegt að fá að heyra frá ykkur. 

Í dag ætla ég að deila með ykkur einum grænum safa sem ég elska og geri ansi oft. Fékk mér hann til dæmis núna seinnipartinn, hann gefur manni góða orku og það er eitthvað sem ég þurfti alveg á að halda í dag. Miðvikudagar eru alltaf stútfullir af dagskrá og því gott að fá góða orku, sérstaklega í svona veðri eins og var í dag. Ég náði ekki lönguninni úr mér að sleppa bara dagskránni, fara heim, baka eitthvað gott brauð og hella upp á gott kaffi og horfa svo bara á rigninguna út um gluggann. En það var víst ekki í boði og dagurinn kláraður, það liggur við að ég voni að það komi annar svona dagur þegar dagskráin er ekki eins stíf svo ég geti átt þessa stund sem mig dreymdi um í allan dag ;) 

En að safanum, þessi er eins einfaldur og þeir gerast og hann er mjög góður, með betri grænum söfum sem ég geri.


Einn grænn og góður, fyrir einn: 
1 banani 
1/2 bolli ananas
1/2 bolli mangó
1 bolli spínat
1 bolli vatn 

Allt sett í blandara og blandað vel saman, gerist ekki einfaldara. Ég myndi hafa allavega einn af ávöxtunum frosinn til að fá safann ferskari, ég er oftast með bæði ananas og mangó frosið en annars er alltaf hægt að setja klaka. 

Upplýsingar um næringarinnihald: 
Skammtastærð: Öll uppskriftin. 
Hitaeiningar: 223,0 kkal 
Kolvetni: 51,4 g
Prótein: 3,0 g
Fita: 0,6 g

fimmtudagur, 20. mars 2014

Súkkulaði kókoskúlur

Þessar kókoskúlur eru dásamlegar. Uppskriftin er frekar stór og gefur rúmar 80 kúlur, það er því tilvalið að henda þeim í frysti og taka nokkrar út þegar sykurþörfin læðist að manni. Ein kúla er ekki nema rétt yfir 30 kaloríur þannig að maður getur alveg leyft sér nokkrar inni í miðri viku án þess að fá samviskubit ;) Svo eru þær líka svo fallegar og gaman að setja þær í fallega skál og bjóða upp á þegar gestir koma. 


Súkkulaði Kókoskúlur: 
1 bolli hakkaðar hnetur eða möndlur, mér finnst heslihetur eða kasjúhnetur bestar
1 bolli kókosmjöl
2,5 bollar hakkaðar döðlur
3,5 msk hreint kakóduft
1 tsk vanilla extract 
Hunang eftir þörfum


Leggið döðlurnar í bleyti í 15 mín og setjið svo í blandara eða matvinnsluvél ásamt restinni af innihaldsefnunum að undanskyldu hunanginu, blandið í 3-4 mín eða þar til allt hefur blandast vel saman og bætið hunangi út í eftir þörfum þannig að þetta verði þykkur massi, u.þ.b. 2-3 msk. 
Látið degið standa í nokkrar mín og búið svo til munnbitastórar kúlur, veltið upp úr kókos og setjið í kæli í klukkustund eða lengur. 

Upplýsingar um næringarinnihald: 
Skammtastærð: Ein kúla, 8 g. 
Hitaeiningar: 31,1 kkal
Kolvetni: 2,9 g 
Prótein: 1,5 g
Fita: 1,5 g 

fimmtudagur, 13. mars 2014

Ungnautagúllas með graskeri

Það er búið að vera mikið að gera upp á síðkastið og því miður hefur hugur minn ekki mikið verið hjá þessu bloggi, en ég er búin að kippa því í lag og er komin aftur á flug með allskonar hugmyndir af réttum sem mig langar til að deila með ykkur. 
Í gær gerði ég þennan rétt úr nautagúllasi og heppnaðist hann svona líka vel, ótrúlega gott af fá vel samsetta og næringarríka heita máltíð í þessu kalda veðri og ekki sakar að það er hægt að borða sig pakksadda/nn án þess að innbirgða margar hitaeiningar.  
Það þarf þó að passa þegar maður kaupir vörur úr dós að saltmagnið sé ekki upp úr öllu valdi og á það líka við um krafta og soð, það er hægt að fá þessar vörur með litlu saltmagni í heilsudeildum í stærstu matvöruverslununum og einhverjum heilsubúðum. 



Ungnautagúllas með graskeri, fyrir fjóra: 
500 g ungnautagúllas
2 tsk paprika
1 tsk kanill
1 tsk salt
1/2 tsk chili pipar flögur (red pepper flakes)
1/2 tsk mulið engifer
1/4 tsk svartur pipar
1 msk olífuolía
4 skallot laukar
4 hvítlauksgeirar
1/2 bolli kjúklingasoð
3 bollar grasker
1 dós (400g) niðursoðnir tómatar
Ferskur kóríander (má sleppa) 

Blandið öllu kryddinu saman í skál og veltið kjötinu upp úr því þar til það hefur þakið vel alla bitana. Hitið olíuna í stórum potti á meðalhita, skerið skallot laukana í fernt og setjið í pottinn ásamt kjötinu. Steikið í nokkrar mínútur eða þar til kjötið hefur brúnast. Pressið hvítlauksgeirana og bætið út í, steikið í  u.þ.b. mínútu og hrærið vel í á meðan, bætið þá kjúklingasoði og tómötum út í, hitið að suðu og látið sjóða í 5 mín. Skerið graskerið í ferninga og bætið út í, látið suðuna koma upp, lokið þá pottinum, lækkið hitann og látið malla í 15 mín eða þar til graskerið er orðið mjúkt.
Berið fram með hýðishrísgrjónum og stráið ferskum kóríander yfir.

Upplýsingar um næringarinnihald: 
Skammtastærð: Einn diskur, um 300 g
Hitaeiningar: 231,9 kkal 
Kolvetni: 18,6 g
Prótein: 27,9 g 
Fita: 5,1 g 

Skammtastærð: 300g af kjötrétt og 120 g soðin hýðishrísgrjón 
Hitaeiningar: 344,7 g
Kolvetni: 42,0 g
Prótein: 30,9 g
Fita: 5,9 g

mánudagur, 3. mars 2014

Amerískar pönnukökur


Þessar amerísku pönnukökur eru eitt það besta sem ég fæ, geri þessa uppskrift mjög oft á morgnana um helgar en á það til að gera þetta líka um miðjan dag þegar ég kem heim af æfingu. Þær eru einfaldar og fljótlegar og þegar það kemur að því að setja ofan á þær eru möguleikarnir endalausir. Ég hef t.d. sett hunang, agave sýróp, ávexti, ber, kókosflögur, hnetusmjör og 70% súkkulaði.
Um að gera að leifa hugmyndarfluginu að ráða ferðinni og prófa sig áfram.


Amerískar pönnukökur
2 dl haframjöl
2 dl kotasæla
4 eggjahvítur

Setjið allt í blandara og blandið þar til allt hefur blandast vel saman. Setjið c.a. 1/2 ausu á heita pönnu og bakið þar til gullið báðu meginn. Uppskriftin gefur um 5 meðalstórar pönnukökur.

Upplýsingar um næringarinnihald:
Skammtastærð: 2 meðalstórar pönnukökur ( neita að trúa því að það fái sér einhver bara eina ;) )
Hitaeiningar: 189,6 kkal
Kolvetni: 20,5 g
Prótein:17,9 g
Fita: 4,0 g 

Skammtastærð: 2 meðalstórar pönnukökur með 1 msk af hunangi og 50 g blönduðum berjum
Hitaeiningar: 272,3 kkal
Kolvetni: 40,1 g 
Prótein: 18,3 g 
Fita: 4,3 g