Góða kvöldið kæru lesesendur. Allt í einu tók bloggið eitthvað stökk og fleiri og fleiri heimsóknir koma með hverjum deginum, það finnst mér ekki leiðinlegt og vil ég nýta tækifærið og þakka fyrir frábærar viðtökur og kveðjur sem ég hef fengið upp á síðkastið. Þið eruð öll frábær og það er æðislegt að fá að heyra frá ykkur.
Í dag ætla ég að deila með ykkur einum grænum safa sem ég elska og geri ansi oft. Fékk mér hann til dæmis núna seinnipartinn, hann gefur manni góða orku og það er eitthvað sem ég þurfti alveg á að halda í dag. Miðvikudagar eru alltaf stútfullir af dagskrá og því gott að fá góða orku, sérstaklega í svona veðri eins og var í dag. Ég náði ekki lönguninni úr mér að sleppa bara dagskránni, fara heim, baka eitthvað gott brauð og hella upp á gott kaffi og horfa svo bara á rigninguna út um gluggann. En það var víst ekki í boði og dagurinn kláraður, það liggur við að ég voni að það komi annar svona dagur þegar dagskráin er ekki eins stíf svo ég geti átt þessa stund sem mig dreymdi um í allan dag ;)
En að safanum, þessi er eins einfaldur og þeir gerast og hann er mjög góður, með betri grænum söfum sem ég geri.
Einn grænn og góður, fyrir einn:
1 banani
1/2 bolli ananas
1/2 bolli mangó
1 bolli spínat
1 bolli vatn
Allt sett í blandara og blandað vel saman, gerist ekki einfaldara. Ég myndi hafa allavega einn af ávöxtunum frosinn til að fá safann ferskari, ég er oftast með bæði ananas og mangó frosið en annars er alltaf hægt að setja klaka.
Upplýsingar um næringarinnihald:
Skammtastærð: Öll uppskriftin.
Hitaeiningar: 223,0 kkal
Kolvetni: 51,4 g
Prótein: 3,0 g
Fita: 0,6 g