Þá er aðventan gengin í garð með öllum þeim kræsingum sem henni fylgja. Mér finnst alveg jafn nauðsynlegt að halda í hollustuna dags daglega eins og mér finnst nauðsynlegt að njóta góðgætisins með fjölskyldu og vinum.
Fyrir nokkru síðan rakst ég á svakalega girnilega jólasmáköku uppskrift á vafrinu um heilsusíðurnar á netinu. Ég er búin að bíða óþreyjufull eftir aðventunni svo ég geti skellt í þessar hollu smákökur og deilt þeim með ykkur. Í gær svo loksins bakaði ég þær, það var nú meira mausið, þetta var ein flóknasta uppskrift sem ég hef bakað. Og svo þegar þær komu út úr ofninum litu þær ljómandi vel út og lyktin var unaðsleg. En bragðið? Nei, þetta voru þær allra verstu smákökur sem ég hef á ævi minni smakkað. Mikið varð ég vonsvikin, eftir alla biðina og vinnuna voru þær algerlega óætar. Þið fáið því ekki uppskrift af þessum misheppnuðu smákökum, en þar sem mig langaði að deila einhverju með ykkur þá ákvað ég að skella í einn af mínum uppáhalds drykkjum, hindberja og bláberja smoothie. Vonandi njótið þig vel.
Hindberja og bláberja smoothie, fyrir einn:
250 ml möndlumjólk
1,5 dl bláber, fersk eða frosin
1,5 dl hindber, fersk eða frosin
Einn lítill banani (eða hálfur stór)
Setjið allt í blandarann og blandið þar til silkimjúkt. Ef þið notið fersk ber er gott að bæta klökum út í.
Upplýsingar um næringarinnihald:
Skammtastærð: Öll uppskriftin
Hitaeiningar: 208,4 kkal
Kolvetni: 40,6 g
Prótein: 3,4 g
Fita: 3,6 g
Engin ummæli :
Skrifa ummæli