Góða kvöldið kæru lesendur og gleðilegt árið. Takk fyrir þann stutta tíma sem við áttum saman árið 2013, ég hef alla trú á að árið 2014 eigi þessi síða eftir að vaxa mikið.
Árið mitt 2013 einkendist af óreglu og var nánast engin rútína allt árið, mikið var um langar vökunætur, gubb í hárinu, maskara niður á kinnar og hor eða matarslettur í nýþvegnum fötum. Ásamt því öllu var mataræðið mitt frekar óreglulegt og oftar en ekki urðu fljótlegar og einfaldar máltíðir fyrir valinu. Þetta er nú samt bara eitthvað sem fylgir því að eignast barn, en þar sem guttinn er orðin rúmlega 7 mánaða er kominn tími til að breyta þessu.
Ég hef heitið mér því að á árinu 2014 verði meiri tíma eytt í eldhúsinu, í hreyfingu og að hugsa um sjálfa mig. Ég hef líka sett mér það áramótaheit að koma að minnsta kosti með eina uppskrift í viku, eða allavega 52 uppskriftir í lok árs og nú verð ég að standa við það fyrst ég er búin að deila því hér ;)
Fyrsta holla kvöldmáltíð ársins var elduð í kvöld, á þessu heimili eru allir komnir með meira en nóg af sukki yfir hátíðirnar og manni farið að langa í holla og góða máltíð.
Sú máltíð sem varð fyrir valinu var holl útgáfa af Tikka Masala kjúkling og eru allir sáttir og sælir eftir matinn. Við vorum orðin það vel svöng þegar maturinn var tilbúinn að ég steingleymdi að vigta skammtinn og því miðast næringarinnihaldið við 1/4 uppskriftarinnar, ég ætla að vigta næst þegar ég elda hann og uppfæra þá upplýsingarnar.
Tikka Masala kjúklingur, fyrir fjóra:
2 kjúklingabringur, án viðbætts sykurs,vatns og aukaefna
2 msk ólífu olía
1 laukur, hakkaður
1 msk ferskur engifer, hakkaður
3 hvítlauksrif, pressuð
1 msk cumin
1 msk Garam Masala (t.d. frá Pottagöldrum)
1/2 msk chili duft
1 tsk sjávarsalt
1 dós hakkaðir tómatar (400 g)
100 g hrein jógúrt
1 dl fjörmjólk eða undanrenna
Ferskur kóríander eftir smekk
Steikið laukinn upp úr olíunni þar til hann er orðinn glær, bætið þá hökkuðu engifer út í og steikið í 2-3 mínútur. Bætið þá hvítlauk út í og steikið í mínútu í viðbót, bætið þá kryddunum við og steikið í 2 mínútur.
Því næst bætið þið tómötum, jógúrti og mjólk út í og hitið að suðu, lækkið hitann og látið malla þar til sósann verður þykkari, c.a. 10-15 mín, mikilvægt er að lækka hitann og láta þetta taka sinn tíma því annars verður rétturinn frekar bragðlaus.
Skerið kjúklinginn í bita og bætið á pönnuna, steikið í 10-15 mínútur eða þar til kjúklingurinn er alveg steiktur í gegn. Dreifið ferskum kóríander yfir í lokinn og berið fram ásamt góðum hollum hrísgrjónum.
Upplýsingar um næringarinnihald:
Skammtastærð: 1/4 uppskriftar og 150 g hýðishrísgrjón
Hitaeiningar: 228,4 kkal
Kolvetni: 17,7 g
Prótein: 19,6 g
Fita: 8,8 g
Engin ummæli :
Skrifa ummæli