fimmtudagur, 14. nóvember 2013

Þorskur með mangó salsa

Nú er fjölskyldan loksins að komast aftur á ról eftir veikindi og lítinn tanntökupúka. Mikið finnst mér gott að geta farið að eyða tíma aftur í eldhúsinu og elda heilsusamlegan og góðan mat ofan í fjölskylduna þegar rútínan er komin aftur í gang. 
Í kvöld eldaði ég mjög góðan þorsk með mangó salsa, ég gerði frekar mikið salsa og get ekki beðið eftir að fá mér það aftur á morgun. Það er hægt að hafa það með mörgu, t.d. er hægt að setja það í vefjur, með í salat eða hafa með kjúkling og fisk eins og ég gerði núna. 


Þorskur, fyrir fjóra: 
1 kg þorsk flök, roð og beinhreinsuð
2 msk límónusafi
3 hvítlauksgeirar, pressaðir
1 tsk svartur pipar

Blandið límónusafa, pressuðum hvítlauk og pipar saman í skál og veltið þorskflökunum vel upp úr blöndunni, raðið flökunum í eldfast mót og eldið í ofni við 180° í u.þ.b. 15 mín eða þar til flökin eru elduð í gegn.

Mangó salsa, fyrir fjóra: 
1 þroskað mangó
1 rauð paprika
1 lítill rauður chili pipar
1/2 rauðlaukur
1 msk fersk söxuð mynta
1 msk ferskur saxaður kóriander
1 msk ferskur límónusafi
salt og pipar eftir smekk

Saxið öll hráefni smátt niður og blandið saman í skál, hellið límónusafa yfir ásamt salti og pipar og blandið öllu vel saman. 

Upplýsingar um næringarinnihald: 
Skammtastærð: 200 g þorskur og 100 g mangó salsa
Hitaeiningar: 253,7 kkal
Kolvetni: 12,9 g
Prótein: 46,7 g
Fita: 1,7 g

Engin ummæli :

Skrifa ummæli