föstudagur, 29. nóvember 2013

Heilhveitipenne með spínati og sólþurrkuðum tómötun

Þetta dásamlega pasta er í miklu uppáhaldi, alveg frábær uppskrift sem gaman er að elda á köldum vetrarkvöldum eins og í kvöld. Ég hvet ykkur eindregið til þess að prófa, þið munuð ekki verða fyrir vonbrigðum. 



Heilhveitipenne með spínati og sólþurrkuðum tómötum, fyrir fjóra: 
300 g heilhveitipenne, hrátt
12 þurrir sólþurrkaðir tómatar, ekki í olíu 
100 g spínat
1 msk ólífu olía
3 dl kjúklingasoð (vatn og kraftur)
1/2 dl furuhnetur
2 pressaðir hvítlauksgeirar
1/4 tsk þurrkaðar chilipipar flögur
20 g rifinn parmesan ostur

Sjóðið pastað eftir leiðbeiningum á pakkanum. 
Hitið kjúklingasoðið að suðu og látið allan kraftinn leysast upp í vatninu. Takið pottinn af hellunni og leggið sólþurrkuðu tómatana í soðið og látið mýkjast í 15 mín. 
Ristið furuhneturnar á pönnu þar til það verða gullnar og leggið svo til hliðar. 
Hitið olíuna á pönnu ásamt chilipipar flögum og hvítlauk, leifið því að hitna í 2-3 mín eða þar til hvítlaukurinn er farinn að mýkjast, bætið þá spínati út í og steikið þar til það er orðið mjúkt. 
Takið sólþurrkuðu tómatana upp úr soðinu og skerið í bita, bætið þeim ásamt restinni af soðinu út á pönnuna og látið krauma smá stund. 
Blandið pasta, tómatblöndunni og furuhnetum saman í stóra skál og dreifið rifnum parmesan osti yfir.  

Upplýsingar um næringarinnihald: 
Skammtastærð: 1 meðalstór diskur, 250 g
Hitaeiningar: 373,4 kkal
Kolvetni: 52,5 g
Prótein: 15,2 g
Fita: 11,4 g

miðvikudagur, 20. nóvember 2013

Banana- og döðlubrauð

Það er svo gott að eiga einn heimadag inn á milli. Í dag er ég búin að eiða mestum parti af deginum í eldhúsinu og bakaði til dæmis þetta góða brauð. Naut þess til hins ýtrasta að gæða mér á nýbökuðu brauðinu og horfa út í frostið, dauðfegin því að geta verið heima í fæðingarorlofi og dúllað mér í rólegheitunum yfir daginn. 


Banana- og döðlubrauð:

150 g spelt
100 g hafrar
5 hakkaðar döðlur
2 vel þroskaðir bananar, stappaðir
1 dl létt ab-mjólk
 2 tsk vínsteinslyftiduft
1/2 tsk matarsódi
1/2 tsk kanill
1/2 tsk sjávarsalt

Hitið ofninn í 200°. 
Blandið saman spelti, höfrum, lyftidufti, matarsóda og kanil í stóra skál. Hakkið döðlurnar og blandið út í þurrefnin ásamt stöppuðum bönunum, ekki hræra of mikið, aðeins þar til öllu er vel blandað saman. Bætið síðast ab-mjólkinni út í og hrærið létt, ef það er hrært of mikið verður degið seigt. 
Þekjið lítið brauðform (marmarakökuform) með bökunarpappír og setjið degið í, passið að það fylli vel út í öll horn og dreifið smá höfrum yfir. Bakið í miðjum ofni í 35-40 mín. 

Upplýsingar um næringarinnihald: 
Skammtastærð : Ein meðalstór sneið, 30 g. 
Hitaeiningar: 75,4 kkal
Kolvetni : 15,4 g
Prótein : 2,2 g
Fita : 0,5 g
Trefjar: 1,3 g

fimmtudagur, 14. nóvember 2013

Þorskur með mangó salsa

Nú er fjölskyldan loksins að komast aftur á ról eftir veikindi og lítinn tanntökupúka. Mikið finnst mér gott að geta farið að eyða tíma aftur í eldhúsinu og elda heilsusamlegan og góðan mat ofan í fjölskylduna þegar rútínan er komin aftur í gang. 
Í kvöld eldaði ég mjög góðan þorsk með mangó salsa, ég gerði frekar mikið salsa og get ekki beðið eftir að fá mér það aftur á morgun. Það er hægt að hafa það með mörgu, t.d. er hægt að setja það í vefjur, með í salat eða hafa með kjúkling og fisk eins og ég gerði núna. 


Þorskur, fyrir fjóra: 
1 kg þorsk flök, roð og beinhreinsuð
2 msk límónusafi
3 hvítlauksgeirar, pressaðir
1 tsk svartur pipar

Blandið límónusafa, pressuðum hvítlauk og pipar saman í skál og veltið þorskflökunum vel upp úr blöndunni, raðið flökunum í eldfast mót og eldið í ofni við 180° í u.þ.b. 15 mín eða þar til flökin eru elduð í gegn.

Mangó salsa, fyrir fjóra: 
1 þroskað mangó
1 rauð paprika
1 lítill rauður chili pipar
1/2 rauðlaukur
1 msk fersk söxuð mynta
1 msk ferskur saxaður kóriander
1 msk ferskur límónusafi
salt og pipar eftir smekk

Saxið öll hráefni smátt niður og blandið saman í skál, hellið límónusafa yfir ásamt salti og pipar og blandið öllu vel saman. 

Upplýsingar um næringarinnihald: 
Skammtastærð: 200 g þorskur og 100 g mangó salsa
Hitaeiningar: 253,7 kkal
Kolvetni: 12,9 g
Prótein: 46,7 g
Fita: 1,7 g

miðvikudagur, 6. nóvember 2013

Hafragrautur með bláberjum og bananabitum

Suma daga er aðeins meira að gera en aðra, það eru búnir að vera frekar margir þannig í röð á þessu heimili. Þegar maður á mann sem er í útlöndum, leikskólabarn í vetrarfrí og ungabarn sem er að taka tennur þá eru vel útilátnar máltíðir ekki endilega á borðum oft á dag. En morgunmatur er eitthvað sem allir á þessu heimili fá áður en þeir fara út úr húsi, ég gæti ekki byrjað daginn án þess að vera búin að borða neitt, því fáið þið einfalda og fljótlega uppskrift af hafragraut í dag. Svo vonandi fer þetta tímabil að ganga yfir og þið fáið uppskrift af einhverri dýrindis máltíð um eða eftir helgi. 



Hafragrautur með bláberjum og bananabitum, fyrir tvo: 

2,5 dl hafrar
5 dl vatn 
4-5 dropar stevia (getið líka notað hunang eða agave) 
1/2 banani skorinn í sneiðar
1 dl bláber, fersk eða frosin

Setjið hafra og vatn í pott og sjóðið þar til passlega þykkt, bætið þá stevia dropum eða öðru sætuefni út í. Skiptið grautnum í tvær skálar og dreifið bláberjum og bananabitum yfir. Þið getið hellt smá mjólk yfir í lokinn ef þið viljið. 

Í einni skál, þ.e. helming uppskriftar eru: 
Hitaeiningar: 209 kkal
Kolvetni: 37,8 g
Prótein: 6,8 g
Fita: 3,1 g
Trefjar: 6,7 g