Eins og ég hef áður sagt þá er ég ein af þeim sem get ekki farið út úr húsi án þess að borða morgunmat. Það er þó ekki alltaf nægur tími á morgnana til að búa til eins góðan morgunmat og ég myndi vilja, þess vegna finnst mér morgunmatur sem hægt er að undirbúa kvöldið áður og grípa í um morguninn alger snilld.
Chia fræin eru próteinrík og innihalda mikið af trefjum og hollum fitusýrum. Þegar fræin eru látin liggja í vökva þenjast þau út og úr verður nokkurskonar búðingur.
Margir blanda eingöngu saman fræjum og mjólk, það er alveg ágætt eitt og sér en þessi uppskrift er sú sem ég geri oftast og finnst langbest, ég fæ ekki leið á henni, það er fátt annað sem gefur mér jafn góða orku út í daginn.
Chia-morgungrautur, fyrir einn:
1 banani
2 msk Chia fræ
1/2 msk vanillu extract
200 ml möndlumjólk, eða önnur mjólk
Kanill eftir smekk
Stappið bananann og setjið í skál, blandið Chia fræjum saman við og hrærið. Hrærið restina af innihaldsefnunum saman við og geymið inn í ískáp í a.m.k. 2 klst, ég geymi hann alltaf yfir nótt.
Mér finnst best að hita grautinn aðeins áður en ég borða hann en það þarf alls ekki, og svo bæti ég út á því sem mig langar í hverju sinni, fræjum, hnetum, rúsínum og fleiru. Þetta er algert lostæti og maður verður saddur lengi á eftir.
Upplýsingar um næringarinnihald:
Skammtastærð: Einn skammtur, öll uppskriftin (án þess að bæta neinu út á grautinn)
Hitaeiningar: 216,1 kkal
Kolvetni: 23,0 g
Prótein: 7,4 g
Fita: 10,5 g