Þessi drykkur er ákaflega frískandi og ætti að vera skyldudrykkur á hverju einasta heimili í byrjun árs eftir allt jólasukkið.
Vatnsmelónur og kókosvatn eiga það sameininlegt að innihalda mikið af C-vítamíni sem styrkir ónæmiskerfið og dregur úr líkunum á því að við fáum flensu, sem er einstaklega henntugt núna þar sem mér finnst allt sem hægt er smitast af vera að ganga. Einnig eiga þau það sameiginlegt að vera með basískt pH gildi og öll óhollustan sem flestir borðuðu um jólin gera líkamann súrann og því er gott að fá jafnvægi á sýrustigið í líkamanum með þessum drykk.
Vatnsmelónurnar eru vatnslosandi og hjálpa okkur að losa bjúg eftir allt saltátið. Þær innihalda mörg næringarefni þrátt fyrir að vera mest megnis vatn, þær innihalda t.d. B6 vítamín sem hjálpa starfsemi heilans og A-vítamín sem eru góð fyrir sjónina, henntugt fyrir okkur sem erum að byrja aftur í skólanum eftir frí.
Einnig hafa nýlegar rannsóknir sýnt að neysla á vatnsmelónum getur dregið úr eymslum í vöðvum. Það þurfa væntanlega margir á því að halda núna þar sem hálf þjóðin er með harðsperrur eftir að vera að byrja í janúarátakinu ;)
Síðast en ekki síst eru vatnsmelónur ein besta uppspretta andoxunarefnisins Lycopene en það getur hjálpað til í baráttunni við hjartasjúkdóma og nokkrar tegundir krabbameina.
Kókosvatnið er einnig mjög hollt, það er t.d. ríkt af trefjum, steinefnum og ákveðnum ensímum sem hjálpa meltingunni. Það er því mjög gott að drekka kókosvatn þegar maður þarf að laga meltinguna hjá sér og losna við allt ruslið sem var borðað í desember.
Þannig að, af þessum ástæðum segi ég að þessi svalandi og ferski drykkur sé skyldudrykkur fyrir alla þá sem nutu alls þess góða sem hátíðirnar hafa upp á að bjóða.
Njótið!
Vatnslosandi vatnsmelónudrykkur:
2 bollar vatnsmelónubitar
1 bolli kókosvatn
Safi úr hálfri límónu
Nokkur blöð af ferskri myntu
Klakar
Allt sett í blandara, klakarnir síðast, það má líka setja þá út í eftir að drykknum hefur verið hellt í glas.
Upplýsingar um næringarinnihald:
Skammtastærð: Öll uppskriftin
Hitaeiningar: 155 kkal
Kolvetni: 34,9 g
Prótein: 3,4 g
Fita: 0,2 g
Engin ummæli :
Skrifa ummæli