Er ekki kominn tími á eina eftirréttafærslu ?
Ég er alls enginn öfgamanneskja þegar kemur að mataræði, ég legg upp úr því að borða hollt og hreyfa mig en þegar mig langar í eftirrétt þá á ég það alveg til að fá mér það sem er í boði, enda er allt gott í hófi. Því hef ég ekki verið nógu dugleg að prófa mig áfram í hollum eftirréttum en eftir að ég opnaði þessa síðu fannst mér ekki annað hægt.
Ég er búin að prófa ansi margar uppskriftir af eftirréttum seinustu mánuði og ég rekst alltaf aftur og aftur á súkkulaðibúðinga búna til úr avócadó á flakkinu um erlendar heilsusíður. Ég ákvað því að þetta þyrfti ég að prófa, ég prófaði nokkrar uppskriftir áður en þessi var fullkomnuð og það kom mér mikið á óvart hversu gott þetta er. Avócadóið er fullt af hollri fitu og þegar það er maukað gefur það rjómakennt yfirbragð og gerir þennan eftirrétt dásamlegann. Það er þó mjög mikilvægt að hafa vel þroskuð avocadó því annars verður avócadóbragðið yfirgnæfandi.
Súkkulaði-avócadó búðingur, fyrir fjóra:
2 frekar lítil vel þroskuð avócadó
1 dl kakó, ósykrað
0,5 dl hunang
2 msk grísk jógúrt
1 dl möndlumjólk með vanillubragði
2 tsk vanilla extract
Smá sjávarsalt
Takið utan af avócadóunum og fjarlægið steininn. Setið innihaldsefninn í blandara eða matvinnsluvél í þeirri röð sem þau eru talinn upp og blandið þar til silkimjúkt. Mér finnst gott að dreifa smá kókos yfir.
Upplýsingar um næringarinnihald:
Skammtastærð: 1 dl af búðing
Hitaeiningar: 150,3 kkal
Kolvetni: 17,7 g
Prótein: 2,1 g
Fita: 7,9 g
Engin ummæli :
Skrifa ummæli